Nú styttist í konudaginn. Þessi kanelsnúðauppskrift er, að mínu mati, tilvalin sem konudagsbakstur, hvort sem á að bera hann fram um morgun eða í kaffi – og ég tala nú ekki um þegar snúðunum er raðað upp í svona krúttlegt hjarta. Snúðarnir eru með guðdómlegu kremi.
Nú hefur bakstur oft verið tengdur við konur og þekkt er að sumir karlar segi að konur eigi að bara vera í eldhúsinu en ekki þeir. En kommon – við lifum á 21. öldinni og ég legg til að þessi setning verði gleymd og ekki einu sinni sögð í gríni.
Þannig að nú skora ég á alla karlmenn sem lesa þetta blogg – að baka þessa snúða fyrir konurnar sínar á konudaginn.
Snúðadeig – Innihald
235 ml volg mjólk 10 g ger 620 g hveiti 1 tsk salt 100 g sykur 75 g bráðið smjörlíki 2 egg (við stofuhita)
Fylling í snúðana – Innihald
220 g púðursykur 15 g kanill 75 g bráðið smjör
Fylling í snúðana – Aðferð:
Blandið púðursykrinum og kanilnum saman með skeið
Bræddu smjörinu bætt út í og blandað saman með skeið
Snúðar – Aðferð:
Velgið mjólkina og setið gerið svo út í
Blandið þurrefnum í skál
Bætið bræddu smjörlíkinu við ásamt eggjunum og blandið aðeins saman við.
Setjið svo mjólkina með gerinu út í deigið og hnoðið (Ráðið hvort þið hnoðið í vél eða í höndunum)
Látið deigið hefast í 40 mínútur. (Gott að geyma skálina inn í örbylgjuofni)
Skiptið deiginu í tvennt og fletjið hvorn hluta út í ferning, ca ½ cm þykkann (Setjið hveiti undir svo deigið festist ekki við bekkinn)
Leyfið deiginu aðeins að jafna sig í ca. 10 mínútur.
Dreifið fyllingunni út um allt deig, þannig að það sé þunnt lag af fyllingu á öllum ferningnum.
Rúllið deiginu upp.
Skerið snúðana þannig að þeir séu ca. 1 og ½ cm þykkir.
Raðið þeim á plötu eins og sést á myndinni fyrir ofan.
Bakið við 200°C í 10 – 15 mínútur. Á meðan snúðarnir eru í ofninum er tilvalið að gera kremið sem fer ofan á þá.
Krem – innihald:
85 g rjómaostur 55 g bráðið smjör 200 g fljórsykur 1 tsk vanilludropar
Krem – Aðferð:
Allt sett í skál og hrært saman með handþeytara.
Þegar snúðarnir eru komnir út úr ofninum skal leyfa þeim aðeins að kólna áður en kremið er sett á.
Kremið er síðan sett á með skeiðum, ca 1 tsk á hvern snúð.
Ég gerði tvö hjörtu núna, 1 stórt og annað lítið og ég set ekki krem á litlu snúðana því sumir kjósa að borða snúðana án kremsins
Svo er bara að njóta! - Unnur Anna -